news

Lubbi finnur málbeinið

05. 11. 2020

Margir kannast kannski við bókina Lubbi finnur málbein sem kom út fyrir nokkrum árum. Hugmyndasmiðirnir á bak við Lubba, Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, eru talmeinafræðingar sem hafa áralanga reynslu af talþjálfun barna. Námsefnið býður upp á nýja framsetningu á íslensku málhljóðunum og leggur góðan grunn að lestrarnámi auk þess sem það stuðlar að betri orðaforða og ýtir undir skýrari framburð.

Lubbi er íslenskur fjárhundur sem langar mikið til að læra að tala en þá þarf hann að læra öll íslensku málhljóðin. Það sem hundum finnst best er að naga bein og er Lubbi engin undantekning. Þess vegna líta málhljóðin út eins og bein sem Lubbi nagar og lærir þannig smátt og smátt að tala. Hann þarf hins vegar góða aðstoð við að læra málhljóðin og ætla krakkarnir að aðstoða hann með söng og ýmsum öðrum æfingum.

Yfir skólaárið er unnið með eitt málhljóð í hverri viku sem hvert er táknað með litlum og stórum bókstaf. Öll málhljóðin eiga sér ákveðið tákn en með því að tengja hljóð við táknræna hreyfingu auðveldar það börnunum að læra það og muna. Hverju málhljóði fylgir lag sem auðvelt er að læra utanbókar og gaman er að syngja lögin og tákna hljóðin um leið.

© 2016 - Karellen