Einkenni hlaupabólu eru meðal annars slappleiki og hiti sem geta komið áður en bólur myndast. Útbrot, sem valda kláða, myndast fyrst á búk og í andliti en berast síðan í hársvörð, handleggi og fætur. Þau geta einnig borist yfir á slímhúðir og kynfæri. Til að byrja með eru útbrotin litlar rauðar bólur sem verða að blöðrum á nokkrum klukkutímum. Blöðrurnar verða síðan að sárum á 1-2 dögum, það myndast hrúður og þær þorna upp. Nýjar blöðrur geta myndast eftir 3-6 daga. Það er mjög mismunandi hversu margar blöðrur hver einstaklingur fær. Börn verða yfirleitt lítið veik á meðan fullorðnir geta orðið mjög veikir.

Útbrotin sem fylgja hlaupabólu byrja sem litlir rauðir blettir, verða síðan að vökvafylltum blöðrum og loks sárum sem þorna upp. Einstaklingur er smitandi þangað til að allar blöðrur eru orðnar að sárum og nýjar eru hættar að myndast. Halda skal smituðum einstaklingi heima við. Gæta verður hreinlætis ef komið er við blöðrurnar eða svæðin í kring og ráðlegt að þvo sér vel um hendur. Börn klóra gjarnan í blöðrurnar og geta því borið smit.

Batahorfur eru afar góðar og yfirleitt stafar engin hætta af sjúkdómnum. Hlaupabóla varir í 7-10 daga hjá börnum en lengur hjá fullorðnum. Fullorðnir fá oftar fylgikvilla en börn, en þeir eru hins vegar mjög sjaldgæfir.

Meðferð við hlaupabólu felst í því að draga úr einkennum. Hægt er að lina kláða með köldum bakstri. Hiti og sviti auka á kláðann og því getur verið gott að vera í svölu umhverfi og sturta eða bað geta slegið á kláðann. Sinkáburður, púður og áburður sem inniheldur menthol og mentholspritt eru dæmi um efni sem gott er að bera á útvortis og draga úr kláðanum til skamms tíma. Notkun þeirra getur þó valdið sviða í stutta stund.

Ef kláðinn truflar svefn er hægt að gefa kláðastillandi lyf, en þau geta haft sljóvgandi áhrif. Hægt er að meðhöndla sjúkdóminn hjá heilbrigðum einstaklingi með lyfjum. Þeir sem eru í áhættuhópi, svo sem þungaðar konur sem ekki hafa fengið hlaupabólu og einstaklingar með veiklað ónæmiskerfi, geta fengið mótefni gegn sjúkdómnum. Í sumum löndum er bólusett gegn veirunni, en það er ekki gert hér á landi.

Sá sem hefur einu sinni fengið hlaupabólu fær hana aldrei aftur. Hins vegar getur veiran síðar valdið sjúkdómi sem heitir ristill (herpes zoster). Einstaklingur með ristil getur smitað aðra af hlaupabólu. Til þess að fræðast meira um ónæmi (þar með talið ástæðu þess að fólk fær hlaupabólu aðeins einu sinni) er gott að lesa svar Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvernig vinnur ónæmiskerfið? (Opnast í nýjum vafraglugga) (Opnast í nýjum vafraglugga)

Þetta svar er lítillega breytt útgáfa af pistli um hlaupabólu á vefsetrinu Doktor.is (Opnast í nýjum vafraglugga) (Opnast í nýjum vafraglugga) og birt hér með góðfúslegu leyfi aðstandenda þess.

© 2016 - Karellen