Velkomin í skólann

Við bjóðum foreldrum/forráðamönnum og barni/börnum ykkar velkomin í Heilsuleikskólann Kór.

Leikskólinn starfar eftir hugmyndafræði Heilsustefnunnar með það að markmiði að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik.

Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. Í Heilsuleikskólanum Kór er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu.

Skólinn er opin frá kl. 7:45 - 16:30 alla virka daga.


Dvalarsamningur

Við upphaf skólagöngu skrifa allir foreldrar undir dvalarsamning. Við hvetjum foreldra til að kynna sér ákvæði dvalarsamnings barnanna vel.Í honum er m.a. að finna upplýsingar um dvalartíma barnsins. Við viljum biðja foreldra um að fara ekki fram yfir þann tíma sem samið hefur verið um. Vinnutími starfsmanna er skipulagður með tilliti til dvalarsamninganna.


Aðlögun

Heilsuleikskólinn Kór styðst við þátttökuaðlögun þar sem reynt er að mynda sterk og jákvæð tengsl á milli heimilis og skóla. Foreldrum og barni býðst að fá stutta heimsókn í heimahús þar sem skólastjóri og deildarstjóri koma og spjalla við foreldra/forráðamenn og kynnast barninu á heimavelli þess.

Þegar aðlögun hefst í leikskólanum er byrjað á því að mæta í stutta viðveru sem er síðan lengd næstu daga á eftir, en miðað er við að aðlögun taki 3-5 daga með foreldrum. Gott er síðan að bjóða börnunum styttri daga fyrst um sinn þegar þau eru farin að mæta án foreldris í leikskólann.

Fjarvistir, veikindi og slys

Frí og veikindi skal tilkynna til leikskólans. Öll veikindi barna eru skráð í heilsumöppu sem hvert barn á en það er einn liður í starfi Heilsuleikskólans Kórs. Mikilvægt er að reyna að ná sambandi við kennara deildarinnar svo að skráningin verði sem nákvæmust. Æskilegt er að tilkynna fjarvistir barns eins snemma morguns og unnt er, eigi seinna en kl.9.00 svo hægt sé að skipuleggja daginn miðað við barnafjölda. Ef barn veikist í leikskólanum er haft samband við foreldra og þess óskað að barnið verði sótt. Best er að barnið hafi náð fullum bata eftir veikindi svo þau geti tekið fullan þátt í starfsemi leikskólans. Við tökum ekki á móti börnum sem þurfa að vera inni vegna þess að þau eru alveg að verða veik. Börn eru smitberar á þeim tíma og geta því smitað önnur börn. Læknar hafa staðfest að börn verða ekki veik af því að vera úti í fersku lofti og að börnum með kvef verður ekki meint af því. Almennt er miðað við að börn nái einum sólarhring einkennalaus heima í kjölfar veikinda, en tvo sólarhringa þegar um uppköst og niðurgang er að ræða.

Ef barn verður fyrir minni háttar slysi er strax haft samband við foreldra. Ef um meiriháttar slys er að ræða er unnið eftir slysaferli og samband haft við 112.

Óveður og náttúruvár

Ef óveður eða náttúruvár skellur á þá er leikskólinn í samvinnu við Almannavarnir og vinnur eftir litarkóða Almannavarna og upplýsir foreldra samkvæmt því. Hér fyrir neðan er svo linkur um upplýsingar og verkferla litakóða Almannavarna.

Röskun á skólastarfi - litakóði Almannavarna



© 2016 - Karellen