Heilsuleikskólinn Kór er við Baugakór 25 í Kópavogi. Skólar ehf. hafa verið með þjónustusamning við Kópavogsbæ frá því hann tók til starfa 1. júní 2006. Kór er 842 m2 að stærð og er byggingin eign Kópavogsbæjar.
Á leikskólanum eru sex deildir/lundir með 122 nemendum frá 18 mánaða aldri til sex ára. Deildarnar/lundirnir draga nafn sitt annars vegar að Guðmundalundi sem er eitt kennileita nánasta umhverfis og hins vegar dyggðum en þær/þeir heita Friðarlundur, Vinalundur, Gleðilundur, Gæðalundur, Tryggðarlundur og Kærleikslundur.
Leikskólinn Kór var vígður Heilsuleikskóli 1. desember 2008 og er kjörorð leikskólans „heilbrigð sál í hraustum líkama“.
Frá opnun leikskólans var mikill áhugi fyrir umhverfismennt en snemma árs 2010 var tekin meðvituð ákvörðun um að efla hana enn frekar í leikskólanum. Umhverfismennt fellur vel að Heilsustefnunni, að hugsa vel um umhverfi sitt til jafns við líkama og sál.
Á sex ára afmæli skólans þann 1. júní 2012 fékk skólinn afhentan Grænfánann í fyrsta sinn en í annað sinn þann 30. maí 2014 og í þriðja sinn 2016.
Heilsuleikskólinn Kór fékk Umhverfisviðurkenningu árið 2012 frá Umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs fyrir framlag sitt til umhverfis og samfélags. Erum við afar stolt af þeirri viðurkenningu.
© 2016 - Karellen